Symon Petljúra

Úkraínskur herforingi (1879-1926)

Symon Vasylovytsj Petljúra (úkraínska: Си́мон Васи́льович Петлю́ра) var úkraínskur stjórnmálamaður, herforingi og blaðamaður. Hann var leiðtogi úkraínska hersins og forseti úkraínska alþýðulýðveldisins á stuttum tíma úkraínsks sjálfstæðis frá 1918 til 1921, eftir hrun rússneska keisaradæmisins árið 1917.

Symon Petljúra
Симон Петлюра
Petljúra á þriðja áratugnum.
Forseti Alþýðulýðveldisins Úkraínu[a]
Í embætti
11. febrúar 1919 – 25. maí 1926
ForsætisráðherraSerhíj Ostapenko
Borys Martos
Ísaak Mazepa
Vjatsjeslav Prokopovytsj
ForveriVolodymyr Vynnytsjenko
EftirmaðurAndríj Lívytskyj
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. maí 1879
Poltava, Úkraínu, rússneska keisaradæminu
Látinn25. maí 1926 (47 ára)París, Frakklandi
ÞjóðerniÚkraínskur
StjórnmálaflokkurÚkraínski sósíaldemókratíski verkamannaflokkurinn
MakiOlha Petljúra (1885–1959, g.1910)
Börn1
HáskóliKirkjuháskólinn í Poltava
Undirskrift

Petljúra er umdeild persóna og mikið hefur verið deilt um arfleifð hans. Sumir úkraínskir þjóðernissinnar líta á hann sem sjálfstæðishetju en hins vegar hefur Petljúra víða verið fordæmdur vegna fjöldamorða á Gyðingum (pogrom) sem framin voru af hermönnum hans. Í orði kveðnu fordæmdi Petljúra slík morð og lagði við þeim þungar refsingar, en gagnrýnendur hans telja hann ekki hafa gert nóg til að stöðva ofbeldið. Petljúra var ráðinn af dögum í París árið 1926 af Sholem Schwarzbard, Gyðingi sem vildi hefna fjöldamorðanna. Schwarzbard var í kjölfarið sýknaður af vígi Petljúra í ljósi Gyðingaofsóknanna sem höfðu viðgengist undir stjórn hans.

Æviágrip

Symon Petljúra tók þátt í stofnun Úkraínska sósíaldemókratíska verkamannaflokksins árið 1905 og var ritstjóri tveggja sósíalískra vikublaða. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 varð Petljúra liðsforingi í rússneska hernum.[1]

Þegar rússneska keisaradæmið hrundi í rússnesku byltingunni árið 1917 gekk Petljúra til liðs við miðstjórn Úkraínu (rada), sem lýsti yfir sjálfstæði landsins frá Rússlandi. Í júlí 1917 var Petljúra útnefndur stríðsmálaráðherra nýja úkraínska alþýðulýðveldisins.[1]

Eftir að stjórn bolsévika dró Rússland úr fyrri heimsstyrjöldinni með Brest-Litovsk-sáttmálanum árið 1918 hertóku Þjóðverjar Úkraínu og settu á fót leppstjórn undir stjórn Pavlo Skoropadskyj, sem tók sér tign höfuðsmanns. Þegar Þjóðverjar hörfuðu frá Úkraínu undir lok styrjaldarinnar tók Petljúra sér forystuhlutverk í úkraínsku sjálfstæðishreyfingunni og tókst að kollvarpa stjórn Skoropadskyj. Petljúra hlaut sæti í fimm manna framkvæmdaráði alþýðulýðveldisins og varð æðsti hershöfðingi (ataman) herafla þess.[1]

Í rússnesku borgarastyrjöldinni börðust Petljúra og bandamenn hans bæði gegn rauða hernum, sem vildi koma Úkraínu aftur undir rússneska stjórn í nafni kommúnismans, og hvíta hernum sem vildi endurreisa keisaradæmið. Hvítliðar hertóku Úkraínu og kollvörpuðu stjórn Petljúra undir lok ársins 1918. Þegar hvítliðar urðu að hörfa frá Úkraínu haustið 1919 komst Úkraína undir stjórn bolsévika.[1]

Í apríl 1920 gekk Petljúra í bandalag við Józef Piłsudski, leiðtoga Póllands, í von um að geta með hans hjálp rekið Sovétmenn frá Úkraínu. Petljúra og her hans studdu Piłsudski í stríði Póllands og Sovétríkjanna. Pólverjar sigruðu Sovétmenn í stríðinu en í Riga-sáttmálanum þar sem samið var um vopnahlé tókst ekki að semja um sjálfstæði Úkraínu.[1]

Petljúra bjó í Varsjá í nokkra mánuði en flutti síðan til Parísar ásamt útlegðarríkisstjórn sinni.[1]

Hlutverk í Gyðingaofsóknum

Ofbeldi gegn Gyðingum var útbreitt meðal allra deiluaðila í Úkraínu á tíma rússnesku borgarastyrjaldarinnar. Alls er talið að um 35.000 til 50.000 Gyðingar hafi verið drepnir á þessum tíma. Af um 1.236 árásum á Gyðinga (pogrom) sem gerðar voru í Úkraínu bar her alþýðulýðveldisins undir stjórn Petljúra ábyrgð á 493.[2][3]

Deilt hefur verið um hlutverk Petljúra í Gyðingaofsóknunum. Bent hefur verið á að Petljúra hafi reynt að stöðva ofbeldi gegn Gyðingum og hafi lagt dauðarefsingar gegn því að fremja pogrom.[4] Þann 26. ágúst 1919 gaf Petljúra út yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi pogrom og lýsti því yfir að þeir sem fremdu þau skyldu reknir úr her alþýðulýðveldisins og að litið yrði á þá sem svikara. Í yfirlýsingunni sagði Petljúra að líkt og Úkraínumenn hefðu Gyðingar verið hnepptir í þrældóm og sviptir þjóðfrelsi sínu, og að „Gyðingaþjóðin [hefði verið] með okkur frá örófi alda og [hefði] deilt með okkur örlögum og eymd okkar.“[5] Eftir að Petljúra tók við stjórn framkvæmdaráðs alþýðulýðveldisins skipaði hann jafnframt rannsóknir á Gyðingamorðum sem framin höfðu verið í Kamjanets-Podílskyj og Proskúrív og krafðist þess að fremjendur þeirra yrðu dregnir fyrir herrétt.[6]

Petljúra hefur engu að síður verið gagnrýndur fyrir að gera ekki nóg til að koma í veg fyrir pogrom og fyrir að hafa verið tregur til að refsa herforingjum sem ofsóttu Gyðinga af ótta við að glata stuðningi þeirra.[7][8] Meðal annars hefur verið bent á að hann heimsótti borgina Zjytomyr í mars 1919 á meðan ofbeldishrina gegn Gyðingum var yfirstandandi en stöðvaði hana ekki.[9]

Morðið á Petljúra og eftirmálar

Þann 25. maí 1926 var Petljúra skotinn til bana á götum Parísar af Sholem Schwarzbard, Gyðingi sem hafði misst ættingja sína í fjöldamorðunum í Úkraínu og vildi ná fram hefndum. Réttarhöldin yfir Schwarzbard vöktu mikla athygli á sínum tíma og fjöldi frægra manna á borð við Albert Einstein, Henry Bergson, Maksím Gorkíj og Paul Langevin báru vitni. Þar sem Schwarzbard gekkst frjálslega við því að hafa drepið Petljúra gekk vörn hans út á að sýna fram á voðaverkin sem framin hefðu verið gegn Gyðingum af stjórn úkraínska alþýðulýðveldisins. Eftir átta daga réttarhöld kom kviðdómur saman og sýknaði Schwarzbard eftir 32 mínútna umræður.[10]

Neðanmálsgreinar

Tilvísanir