Stepan Bandera

Stepan Andríjovytsj Bandera (úkraínska: Степа́н Андрі́йович Банде́ра; 1. janúar 1909 – 15. október 1959) var úkraínskur fasískur stjórnmálamaður[1][2] sem leiddi öfgahægrisinnaðan hernaðarvæng Samtaka úkraínskra þjóðernissinna (OÚN).

Stepan Bandera
Степан Бандера́
Fæddur1. janúar 1909
Dáinn15. október 1959 (50 ára)
ÞjóðerniÚkraínskur
MenntunFjöltækniháskólinn í Lvív
FlokkurSamtök úkraínskra þjóðernissinna (OÚN)
MakiJaroslava Bandera
Börn3
Undirskrift

Arfleifð og persóna Stepans Bandera eru afar umdeild í Úkraínu. Sumir Úkraínumenn, aðallega í vesturhluta landsins, líta á hann sem þjóðhetju sem lét lífið fyrir sjálfstæðisbaráttu landsins, en í austurhluta Úkraínu, í Póllandi, Rússlandi og Ísrael er hans fyrst og fremst minnst sem samstarfsmanns nasista, sem fjöldamorðingja og sem stríðsglæpamanns.

Æska og uppvöxtur

Bandera fæddist í Galisíu, sem er í dag í vesturhluta Úkraínu en var þá hluti af austurrísk-ungverska keisaradæminu.[3] Hann vildi nema við Tækni- og hagfræðiskólann í Poděbrady, sem var þá í Tékkóslóvakíu, en pólsk yfirvöld neituðu honum um ferðapassa þangað. Bandera hlaut því menntun í landbúnaðarfræði í Lwów (nú Lvív).

Seinni heimsstyrjöldin

Á námsárum Bandera í Lwów, sem þá var hluti af Póllandi, hóf Bandera þátttöku í pólitísku starfi úkraínskra sjálfstæðissinna. Árið 1934 var forysta Samtaka úkraínskra þjóðernissinna (OÚN) handtekin vegna þátttöku í morðinu á pólska innanríkisráðherranum Bronisław Pieracki. Bandera var dæmdur til dauða en dómurinn var síðan mildaður í lífstíðarfangelsi. Eftir að Þjóðverjar og Sovétmenn gerðu sameiginlega innrás í Pólland í september 1939 misstu pólsk yfirvöld stjórnina og Bandera slapp úr fangelsi. Hann hélt áfram baráttu sinni fyrir sjálfstæði Úkraínu með OÚN.

Þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin þann 22. júní 1941 stóðu Bandera og OÚN fyrir skemmdarverkastarfsemi innan Sovétríkjanna til að aðstoða framrás Þjóðverja. Bandera komst hins vegar upp á kant við þýska hernámsliðið þegar OÚN gaf út yfirlýsingu um endurreisn sjálfstæðis Úkraínu þann 30. júní. Liðsmenn OÚN stóðu fyrir ofbeldishrinu gegn Gyðingum og Pólverjum samhliða yfirlýsingunni.[4][5] Þjóðverjar höfðu ekki hug á því að Úkraína yrði sjálfstætt ríki og því handtóku þeir Bandera þann 6. júlí.[3] Eftir handtökuna var Bandera sendur til dvalar í Sachsenhausen-fangabúðunum og dvaldi þar til september 1944.

Þegar rauði herinn hafði snúið vörn í sókn gegn Þjóðverjum og endurheimt stjórn í austurhluta Úkraínu árið 1944 létu Þjóðverjar sleppa Bandera úr haldi í von um að OÚN gætu hjálpað til við að hindra framsókn Sovétmanna. Bandera var því frjáls sinna ferða í september og kom sér upp höfuðstöðvum í Berlín til að hafa umsjón með þjálfun úkraínskra uppreisnarhermanna sem áttu að heyja skæruhernað á bak við varnarlínur Sovétmanna.[3]

Síðari æviár og dauði

Eftir seinni heimsstyrjöldina endurstofnaði Bandera samtök sín, OÚN-B, með aðstoð bresku leyniþjónustunnar MI6.[6] Hann fékk hins vegar ekki að snúa heim til úkraínska sovétlýðveldisins til að halda áfram baráttu gegn sovéskum stjórnvöldum.

Bandera var myrtur í München þann 15. október árið 1959 þegar sovéskur launmorðingi, Bohdan Stasjynskyj, byrlaði honum blásýru.[3] Stasjynskyj gekkst síðar við morðinu á Bandera og á öðrum svipuðum launmorðum. Morðið var skipað af þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, Níkíta Khrústsjov.[7]

Eftirmæli

Stytta af Stepan Bandera í Ternopíl í vesturhluta Úkraínu. Minnismerkið var afhjúpað árið 2008 í tilefni af hundrað ára afmæli Bandera næsta ár.

Árið 2010 lét Víktor Júsjtsjenko, þáverandi forseti Úkraínu, sæma Bandera titlinum „hetju Úkraínu“ (Герой України).[3] Eftirmaður Júsjtsjenko, Víktor Janúkovytsj, sem tók við embætti síðar sama ár, lét ógilda veitingu titilsins á þeim grundvelli að Bandera hefði aldrei haft úkraínskan ríkisborgararétt.[8] Veiting heiðurstitilsins var afar umdeild og var harðlega gagnrýnd af Póllandi, Rússlandi, félagasamtökum Gyðinga og af Simon Wiesenthal-miðstöðinni.[9][10][11]

Árið 2018 tók úkraínska þingið til umfjöllunar tillögu um að sæma Bandera aftur titli „hetju Úkraínu“. Tillagan var felld á þingi þegar kosið var um hana í ágúst 2019.[12]

Í stríði Rússlands og Úkraínu og einkum frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu 2022 hafa rússnesk stjórnvöld gjarnan bent á þá hylli sem Bandera nýtur enn meðal sumra úkraínskra þjóðernissinna til stuðnings fullyrðingum sínum um að Úkraínu sé stýrt af nasistum.[13]

Tilvísanir