Nikkel

Frumefni með efnatáknið Ni og sætistöluna 28

Nikkel eða nikull er frumefni með efnatáknið Ni og er númer 28 í lotukerfinu.

  
KóboltNikkelKopar
 Palladín 
EfnatáknNi
Sætistala28
EfnaflokkurHliðarmálmur
Eðlismassi8908,0 kg/
Harka4,0
Atómmassi58,6934 g/mól
Bræðslumark1728,0 K
Suðumark3186,0 K
Efnisástand
(við staðalaðstæður)
Fast form
Lotukerfið

Almennir eiginleikar

Nikkel er silfurhvítur málmur sem tekur á sig mikinn gljáa. Það tilheyrir járnhópnum og er hart, þjált og sveigjanlegt. Það finnst í efnasambandi við brennistein í milleríti, við arsen í steintegundinni nikkólíti, og við arsen og brennistein í gersdorfíti.

Sökum þess hversu stöðugt það er í snertingu við loft og tregðu þess gagnvart oxun, er það mikið notað í mynt, til að málmhúða járn, látún o.fl., í efnafræðitæki, og í málmblöndur, þá gjarnan kallað nýsilfur. Það er segulmagnað, finnst oft með kóbolti, og finnast bæði efnin stundum með járni úr loftsteinum. Það er einkum verðmætt sökum málmblandna sem það er notað í.

Nikkel er eitt af fimm járnsegulmögnuðum frumefnum.

Algengasta oxunarstig nikkels er +2, en 0, +1 og +3 hafa einnig fundist.

Notkun

Um það bil 65% þess nikkels sem notað er í hinum vestræna heimi fer í framleiðslu á ástenísku ryðfríu stáli. Önnur 12% eru notuð í hitaþolnar málmblöndur. Afgangurinn, eða um 23%, skiptist á milli stálmálmblandna, endurhlaðanlegra rafhlaðna, efnahvata og annarra efna, myntar, smiðjuvara og húðunar.

Almenn not nikkels eru til dæmis:

  • Ryðfrítt stál og aðrar tæringarþolnar málmblöndur.
  • Nikkelstál er notað í brynvarnir og þjófheldnar öryggisvörslur.
  • Málmblandan Alnico er notuð í segulstál.
  • Mu-málmur hefur sérstaklega háan segulstuðul og er notaður til að hlífa við segulsviði.
  • Monel® málmur er nikkelmálmblanda sem hefur gríðarlegt tæringarþol og er notaður í skrúfur skipa, eldhúsvörur og pípulagnir í efnaiðnaði.
  • Mótunarminnismálmar er notaðir í þjarkafræði.
  • Í endurhlaðanlegar rafhlöður, eins og nikkelmálmhýdríð- og nikkel-kadmínrafhlöður.
  • Mynt. Á Íslandi er nikkel notað í alla mynt. 50 og 100 krónu myntin hefur að geyma um 5,5% nikkel. Smærri myntin (1, 5 og 10 krónur) var fyrst gerð úr blöndu af um 25% nikkel og 75% kopar en eftir 1996 var henni breytt í nikkelhúðað stál.
  • Í rafhúðun.
  • Í deiglur fyrir rannsóknastofur í efnafræði.
  • Nikkel er notað sem efnahvati við vinnslu vetnisbundinnar jurtaolíu.

Tenglar