María Lvova-Belova

María Aleksejevna Lvova-Belova (rússneska: Мария Алексеевна Львова-Белова; f. 25. október 1984) er rússnesk stjórnmálakona sem hefur verið umboðsmaður forseta Rússlands í réttindum barna frá árinu 2021.

María Lvova-Belova
Мария Львова-Белова
María Lvova-Belova árið 2020.
Umboðsmaður barna fyrir forseta Rússlands
Núverandi
Tók við embætti
27. október 2021
ForsetiVladímír Pútín
ForveriAnna Kúznetsova
Persónulegar upplýsingar
Fædd25. október 1984 (1984-10-25) (39 ára)
Penza, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum (nú Rússlandi)
StjórnmálaflokkurSameinað Rússland
MakiPavel Kogelman ​(g. 2003)
Börn23 (18 ættleidd)

Þann 17. mars 2023 gaf Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn út handtökuskipun á hendur Lvova-Belova vegna meintrar ábyrgðar hennar á ólöglegum brottflutningum barna frá Úkraínu til Rússlands á tíma innrásar Rússa í Úkraínu.[1]

Æska og starfsferill

Lvova-Belova fæddist þann 25. október 1984. Hún er fædd og uppalin í Penza og útskrifaðist frá A. A. Arkhangelskíj-listaháskólanum árið 2022 sem hljómsveitarstjóri.[2] Frá 2000 til 2005 vann hún sem gítarkennari í tónlistarskólum fyrir börn í Penza. Hún tók þátt í að stofna og stýra hjálparsamtökunum Blagovest, sem fást við að hjálpa munaðarleysingjum, fósturbörnum og stórum barnafjölskyldum í Penza.

Stjórnmálaferill

Frá 2011 til 2014 og 2017 til 2019 var Lvova-Belova meðlimur í borgaralegri eftirlitsnefnd Penzafylkis. Á seinna kjörtímabilinu var hún einnig meðlimur í eftirlitsnefnd Rússneska sambandsríkisins.[3] Árið 2019 var hún kjörin meðformaður héraðshöfuðstöðva Alrússnesku þjóðfylkingarinnar, bandalags stjórnmálaflokka sem styðja stjórn Vladímírs Pútín.[4]

Árið 2019 gekk Lvova-Belova í stjórnmálaflokkinn Sameinað Rússland. Hún hlaut flokksskírteini sitt þann 23. nóvember frá Dmítríj Medvedev forsætisráðherra. Þann 24. nóvember var hún kjörin í forsætisnefnd allsherjarráðs Sameinaðs Rússlands og varð meðformaður starfshóps til að styðja borgaralegt samfélag. Í september 2020 útnefndi nýendurkjörinn fylkisstjóri Penzafylkis, Ívan Belozertsev, hana í þingsæti við Sambandsráð Rússlands í nafni framkvæmdavalds Penzafylkis.[5] Eftir kosningar í fylkinu árið 2021 var hún endurútnefnd af Oleg Melnítsjenko.

Umboðsmaður barna fyrir Pútín

Þann 27. október 2021 útnefndi Vladímír Pútín, forseti Rússlands, Maríu Lvova-Belova í embætti umboðsmanns barna, einum mánuði eftir að fyrri umboðsmaðurinn Anna Kúznetsova tók sæti á þingi.[6]

Innrás Rússa í Úkraínu

Úkraínsk og bresk stjórnvöld hafa sakað Lvova-Belova um að hafa haft umsjón með nauðungarflutningum og þvinguðum ættleiðingum barna frá Úkraínu á tíma innrásar Rússa í landsins frá árinu 2022.[7][8] Í kjölfar innrásarinnar varð Lvova-Belova fyrir refsiaðgerðum af hálfu Bretlands í júní 2022, Evrópusambandsins í júlí 2022, Bandaríkjanna í september 2022 og Japans í janúar 2023.[9][10][11][12]

Lvova-Belova fundar með Vladímír Pútín Rússlandsforseta í mars 2022.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn gaf út handtökuskipan á hendur Lvova-Belova þann 17. mars vegna grunsemda um að hún bæri ábyrgð á ólöglegum brottflutningum úkraínskra barna frá Úkraínu til Rússlands á tíma innrásarinnar. Svipuð handtökuskipun var gefin út gegn Pútín.[13][14]

Einkahagir

Lvova-Belova hefur verið gift Pavel Kogelman, presti í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og fyrrum forritara, frá árinu 2003.[15][3] Þau eiga fimm kynbörn saman og átján ættleidd börn.[16][17] Þau fyrrnefndu fæddust árin 2005, 2007, 2010, 2014 og 2018.[3] Í febrúar 2023 ættleiddi hún fimmtán ára dreng frá Maríúpol. Blaðið The Moscow Times spáði því að þetta myndi vekja reiði vegna hlutverks hennar í ránum Rússa á börnum frá Úkraínu sem stóð yfir á sama tíma.[17][13]

Tilvísanir