Kristín Ingólfsdóttir

Kristín Ingólfsdóttir (f. 14. febrúar 1954) er fyrrum rektor Háskóla Íslands og prófessor í lyfjafræði. Hún tók við stöðu rektors árið 2005 af Páli Skúlasyni og gengdi því embætti í 10 ár til ársins 2015. Kristín var fyrsta konan til að gegna embætti háskólarektors í 100 ára sögu skólans. Hún starfaði áður sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Foreldrar Kristínar eru Ingólfur Þ. Steinsson og Sólveig Pálmadóttir. Eiginmaður Kristínar er Einar Sigurðsson fyrrum framkvæmdastjóri hjá Íslenska útvarpsfélaginu og Flugleiðum og fyrrum forstjóri Árvakurs, Mjólkursamsölunnar og Auðhumlu. Þau eiga þau tvær dætur, Hildi og Sólveigu Ástu, sem báðar eru rafmagnsverkfræðingar.[1]

Nám

Kristín lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík árið 1974, stundaði nám í efnafræði og frönsku í Frakklandi og lauk BS gráðu í lyfjafræði við Háskóla Íslands árið 1978. Kristín lagði stund á nám og rannsóknir við lyfjafræðideild King's College, í London og lauk þaðan doktorsprófi (PhD) 1983.[2] Rannsóknir Kristínar hafa einkum beinst að lyfjaefnafræðilegri greiningu á efnum í íslenskum plöntum og sjávarlífverum sem hafa bólgueyðandi, veiruhemjandi, bakteríuhemjandi og ónæmisörvandi virkni sem og efnum sem hemja vöxt illkynja frumna.[3][4][5][6][7][8]

Störf

Kristín starfaði sem vísindamaður og kennari við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands áður en hún tók við starfi rektors. Eftir 10 ára starf sem rektor var Kristín gestaprófessor við Massachusetts Institute of Technology í Boston, með aðsetur hjá Center for Digital Learning, edX og MIT Media Lab[9].

Árið 2019 var hún skipuð formaður stjórnar Leifur Eiriksson Foundation af Seðlabanka Íslands og University of Virginia[10]. Sama ár var hún skipuð varaforseti stjórnar Háskólans í Lúxemborg[11].  Kristín er formaður ráðgjafarnefndar Landspítala[12] og situr í stjórn tveggja íslenskra sprotafyrirtækja, Atmonia og Akthelia.  Hún situr í alþjóðlegri vísindanefnd við háskólann í Grenoble í Frakklandi[13], er í stjórn Samtaka evrópskra kvenrektora (European Women Rectors´ Association, EWORA)[14] og er fulltrúi Íslands í Committee of the Nordic Medical Research Councils (NOS-M)[15]. Frá 2011-2015 var Kristín kjörin stjórnarmaður í Samtökum evrópskra háskóla (European University Association; EUA). Áður sat hún í stjórn Rannsóknarráðs Íslands,  Nordisk Forskerutdannings Akademi (NorFA, nú NordForsk) og vísindanefndar Krabbameinsfélags Íslands. Kristín átti um árabil sæti í Lyfjanefnd ríkisins og Lyfjanefnd Lyfjastofnunar og tók þátt í starfi evrópsku lyfjamálastofnunarinnar (EMA)[14].

Kristín var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007 fyrir framlag til menntunar og rannsókna.[16] Hún var sæmd Mykolas Romeris verðlaununum af Mykolas Romeris háskólanum í Vilnius í Litháen árið 2006.[17]

Kennsla Kristínar í lyfjafræði hefur snúist um notkun náttúrulegra efna (úr plöntum, örverum og dýrum) og smíðaðra afbrigða þeirra sem lyfseðilsskyld lyf og tæknileg hjálparefni í lyfjaframleiðslu[18].  Kristín hefur flutt fjölda erinda innanlands og utan um lyfjafræðileg málefni, gildi vísinda og nýsköpunar fyrir samfélagið, hlutverk háskóla á tímum efnahagsþrenginga, jafnréttismál, stjórnun á krefjandi tímum, ofl. Þá hefur hún flutt erindi og skrifað um menntun og tækni og nauðsyn þess að skólakerfið taki mið af nýjum þörfum atvinnulífs, samfélags og einstaklinga[19][20].


Kristín er skógræktarbóndi á Lundi í Þverárhlíð (Borgarbyggð) í frístundum.

Tilvísanir